Þessar smákökur eru mínar uppáhalds. Kannski fyrir utan Sörur samt, en þær eru og verða alltaf bestar En ég hef bakað þessar kökur í nokkur ár núna og þær eru orðnar ómissandi á jólunum í minni fjölskyldu. Þær eru einfaldlega bara svo hrikalega góðar. Svona ‘einu sinni smakkað, þú getur ekki hætt’.
Lakkrísinn frá Johan Bulow er auðvitað alveg sér á báti hvað varðar bragð og gæði. No.4 er notaður í þessa uppskrift en hann er með bragðbættur með chili. Ekki láta það hræða ykkur samt, ég mæli með því að þið notið þessa týpu í uppskriftina en sterka bragðið af chilíinu fer svo einstaklega vel með sætunni af trönuberjunum og seltunni af lakkrísduftinu. Ég viðurkenni þó að þetta eru meira svona ‘fullorðins’ smákökur
Uppskriftina fékk ég frá systur minni sem býr í Danmörku. Fyrir nokkrum árum í desember sendi hún mér aðventugjöf sem innihélt m.a. þessa uppskrift frá Johan Bulow ásamt lakkrísnum, duftinu og trönuberjunum. Ég varð auðvitað að prófa að baka þessa uppskrift og þá var ekki aftur snúið.
Ég held ég hafi deilt þessari uppskrift hérna áður reyndar, en þessar kökur eru það góðar að þær eiga alveg skilið aðra færslu!
Lakkrís og trönuberja smákökur
200gr hveiti
125gr smjör
160gr sykur
1 egg
0,5tsk lyftiduft
15-20gr lakkrísduft frá Johan Bulow
15stk af lakkrís No.4 frá Johan Bulow
70gr þurrkuð trönuber
Skerið lakkrísinn niður og blandið öllu saman. Rúllið deiginu upp í eina langa rúllu, setjið á bökunarpappír og inn í frysti í ca 30mín. Skerið deigið niður í 1 cm þykkar kökur og leggið þær á plötu. Bakið í ofni við 180°c í 8-10mín.
Ein dolla af lakkrís dugar alveg í tvöfalda uppskrift. Og já, þið viljið tvöfalda þessa uppskrift, treystið mér!



Njótið